Stjörnuegg ehf - Sími: 531 3000

Marens með mintusúkkulaði og perum

Fyrir : 6

Eldunartími : 75 mín

Erfiðleikastig : Miðlungs

Hráefni :

4 stk eggjahvítur
200 g sykur
salt á hnífsoddi
100 g heslihnetur
1 dós niðursoðnar perur
50 ml síróp af perunum
200 g After eight súkkulaði
400 ml rjómi
50 g flórsykur
3 stk fersk mintulauf

Leiðbeiningar :

Hitið ofninn í 150°C. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykri sem og saltinu smám saman við. Eggjahvíturnar eiga að vera það stífar að hægt sé að snúa hrærivélaskálinni á hvolf yfir höfuðið án þess að nokkuð falli úr skálinni.
Smyrjið marensnum á pappírsklædda ofnplötu og bakið í klukkustund. Eftir að baksturstími er liðinn er gott að opna rifu á ofnhurðina og leyfa marensnum að kólna í klukkustund.

Þurristið heslihneturnar, grófsaxið og setjið til hliðar. Sigtið sírópið frá perunum, þerrið þær og skerið í minni bita.
Hellið sírópinu úr dósinni í pott og látið malla í 3-4 mínútur. Bætið súkkulaðinu saman við og blandið vel saman, kælið.
Þeytið rjómann og flórsykurinn saman og smyrjið á marensinn. Raðið perunum fallega yfir rjómann, hellið súkkulaðiblöndunni yfir og stráið heslihnetunum og mintu yfir í lokinn.